Tveir veiðifélagar skruppu á heiðina í dag og tóku stefnuna á Arnarvatn litla. Þeir komu á veiðistað uppúr kl. 9.00 í morgun og skiluðu aflaskýrslu í Hraunfossa um kl. 18.00 í kvöld. Þeir lönduðu 36 fiskum og misstu a.m.k. 20, þannig að það var mikið fjör. Þeir félagar voru mjög ánægðir og töluðu um að fiskarnir væru vel haldnir, feitir og pattaralegir.
Við vorum sammála um að óvenju fáar bleikjur voru í þessum afla en í fyrra var bleikja í meirihluta þess sem veiddist í Arnarvatni litla. Veiðimennirnir töluðu um að vatnsstaðan væri 10 cm lægri miðað við sama tíma oft áður en annar þeirra hefur komið á heiðina á hverju sumri síðastliðinn 40 ár.
Við viljum árétta við heiðarfara að fara varlega með eld og einnota grill. Allur gróður á heiðinni er skraufþurr og mjög erfitt að slökkva eld ef hann kemur upp. Fyrir nokkrum árum kviknaði eldur út frá einnota grilli við Úlfsvatn og þá var ekki við neitt ráðið nema með aðstoð þyrlu.
Von er á fleiri veiðiskýrslum fljótlega og verður spennandi að skoða þær.
Með von um góðar stundir á heiðinni.