Veiðitímabilið hefst þann 15 júní

Opnað verður fyrir veiði þann 15 júní. Færðin á svæðinu er með eindæmum góð, vegir og slóðar óvenju þurrir miðað við árstíma. En ekki er allt gull sem glóir. Þeir sem hafa lagt leið sína á svæðið kvarta undan ryki! Það sé varla hægt að sjá hvert menn eru að fara vegna þess hve ökutækin þyrla upp miklu ryki. Vatnsbúskapurinn hefur oft verið betri í byrjun veiðitímabils en nú hefur varla komið dropi úr lofti í fjórar vikur. Eins var óvenju lítill snjór síðastliðinn vetur. Vorið fór mjög vel af stað og gróður vaknaði snemma en hefur svo staðið í stað vegna mikilla þurrka og næturfrosta sem fylgt hafa norðanáttinni nú í byrjun júní.

Bókanir á húsunum hafa verið með svipuðu sniði og síðustu sumur en þó eru óvenju margar nætur lausar í Úlfsvatnsskála í júní. Við viljum benda áhugasömum á að skoða dagatöl húsanna og athuga hvort draumadagarnir séu lausir og senda inn fyrirspurn fyrr en síðar.

Eins og alltaf er rétt að minna þá sem eiga bókuð hús á að muna eftir kvittuninni þegar lykillinn er sóttur. Lesa póstinn með greiðsluupplýsingum vel þannig að ekki vanti dagsetningar á kvittunina. Annars fá menn ekki lyklana afhenta. Einnig er gott að muna að eftir að taka með sér aflaskráningarblaðið sem allir eiga að hafa fengið sent. Vinsamlega fyllið það samviskusamlega út og skilið með lyklinum eða sendið á netfang veiðifélagsins; veidi@arnarvatnsheidi.is

Endilega sendið okkur myndir og veiðisögur. Það er svo gaman að geta haldið heimasíðunni lifandi og skemmtilegri fyrir alla áhugamenn um Arnarvatnsheiði.

Með von um góðar stundir á heiðinni.

More about Arnarvatnsheiði

Skildu eftir svar