Laus hús í júlí og ágúst

 

Nokkrar breytingar hafa orðið á bókunum í húsin á Arnarvatnsheiði síðustu daga. Því viljum við hvetja þá sem ekki gátu bókað hús sína óska daga að skoða aftur dagatölin á heimasíðunni. Aldrei að vita nema dagar hafi losnað í draumahúsinu. Fólk er hvatt til að hafa samband með smá fyrirvara svo við getum svarað í tíma.

Veiðin hefur oft verið betri í júní en núna og er þar helst tíðarfarinu um að kenna en kalt var og vindasamt í júnímánuði. Vötnin voru mikið gruggug og menn lentu jafnvel í frosti og leiðindaveðri dagana í kringum opnunina. Síðustu daga hefur veðrið lagast og vel hefur veiðst í góðu veðri en mikilli flugu. Munið eftir flugnanetum!

Við viljum enn og aftur hvetja veiðimenn til að skila inn upplýsingum um veiði. Það er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir veiðina. Til upplýsinga fyrir okkur og aðra veiðimenn og svo auðvitað seinni tíma sagnfræðigrúskara. Eins væri frábært að fá myndir frá veiðimönnum sem birta mætti á heimasíðunni. Þannig getum við haldið henni meira lifandi og skemmtilegri.

Meðfylgjandi mynd af fallegri bleikju sendi Lárus Blöndal. Bleikjuna veiddi hann í Úlfsvatni.

 

More about Arnarvatnsheiði

Skildu eftir svar